KVENNABLAÐIÐ

Ég vildi ég hefði vitað þetta áður en ég fór í magabandsaðgerð

Bréfritari óskar nafnleyndar: Ég hef lengi verið of þung og þyngd mín var farin að hafa áhrif á líkamlega og andlega líðan mína. Ég var búin að reyna flesta megrunarkúra og virkuðu sumir í smá tíma en alltaf bætti ég á mig kílóum aftur.

Auglýsing

Ég hafði heyrt af fólki sem hafði farið erlendis til að fá sér magaband, band sem er sett utan um magann. Ég vissi ekki til að slík aðgerð væri framkvæmd á Íslandi og síðar kom hún hingað og íslenskur læknir fór að framkvæma aðgerðina hér. Mögulega voru þeir fleiri, ég þekki það bara ekki nógu vel, en ég vissi af einum.

Ég ákvað að fara í aðgerð, ég kynnti mér magabandið ágætlega og fór í viðtalstíma. Á þessum tíma þá fannst mér þetta góð lausn, þarna sá ég leið fyrir mig til að grennast og þá myndi mér líða betur, andlega og líkamlega.

Aðgerðin var gerð á spítala og var ég svæfð. Ég var nálægt 150 kílóum þegar ég fór í aðgerðina og kjörþyngd mín átti að vera um 80 kíló.

Mér leið strax illa eftir að bandið var sett í mig, ég fékk vonda loftverki í hendina. Mér var óglatt en ég bjóst við að þetta myndi lagast þar sem stutt var frá aðgerðinni og ég bjóst alveg við því að upplifa einhverskonar aukaverkanir eftir aðgerðina. Ég hélt bara að þetta væri hluti af því.

Tíminn leið og ég léttist hratt en ég kastaði mikið upp, mér leið alltaf illa.

Auglýsing

Eftir að hafa verið í tvö ár með magabandið þá lét ég taka það úr mér, ég endaði á spítala mjög veik. Ég kastaði upp miklu blóði og var með blóð í hægðum. Ég var lögð inn á gjörgæslu og fór þaðan á hæðina fyrir ofan. Ég þurfti að vera á sterkum magalyfjum í æð og ég fékk næringu í nokkra daga. Ég var komin á virkilega vondan stað en ég kenni bandinu ekki alfarið um það þar sem á þessum tíma var ég líka undir álagi. Ég hefði samt viljað kynna mér bandið mun betur áður en ég fór í aðgerðina. Þó svo ég hefði kynnt mér það að mörgu leiti, þá var hellingur sem ég vissi ekki fyrr en seinna.

Í dag sit ég uppi með ekkert magaband, ég er með mjög ljót ör á mörgum stöðum á maganum, ég er aftur komin í þá þyngd sem ég var í áður en ég setti bandið í mig, ég er með skuld upp á eina milljón þar sem að ég tók lán fyrir bandinu.

Læknirinn sem setti í mig bandið vill sem minnst við mig tala og ég fæ ekki aðgerðina endurgreidda. Ég hvet alla til að hugsa sig vel um og afla sér upplýsinga um alla þætti tengdu offituaðgerðum áður en farið er í þær því það er eitthvað sem ég hefði átt að gera enn betur.