KVENNABLAÐIÐ

Læri og meðlæti að austurlenskum hætti

Sigurveig Káradóttir skrifar: Lærið var í smærra lagi – 1,7 kíló. Það kallaði á marineringu í jógúrt og góðum kryddum og ég ákvað að láta það eftir því. Og sé ekki eftir því. Jógúrtblandan var mild og góð – endilega smakkið hana áður en hún fer á kjötið og setjið aðeins meira af því sem ykkur langar. Mér fannst hún passleg svona, en öll krydd eru misjöfn og smekkur manna þannig að….aðeins meiri papriku? Aðeins meira kúmen? Látið vaða!

læ1

Auglýsing

200 gr jógúrt (1/2 dós sirka)

2 tsk kanill

1 tsk malað kúmen

2 tsk ómalað kúmen

1 tsk paprika

2 tsk malaðar kardimommur (ég mala þær í morteli, en annars 1 tsk “formalað”)

safi og börkur af einni sítrónu

4-5 hvítlauksrif – smátt söxuð

1 tsk sjávarsalt

1/2 tsk hvítur pipar

læ2

Öllu makað vel á lærið – undir og yfir – plastpoki settur laust utan um fatið og inn í ísskáp. Í þessu tilfelli þar til næsta dag, en það má vel vera bara í nokkra tíma líka. Stundum nær maður ekki að hugsa alltof langt fram í tímann – það er bara þannig.

læ3

Það fór töluverður slatti af gulrótum í fatið – næstum 2 kíló sem er kannski heldur í meira lagi sem meðlæti, en þar sem ég var nokkuð viss um að þetta yrði gott og góð undirstaða í hádegismat næsta dag….

Ég skar þær í fremur stóra bita, setti í fat ásamt vatni, sjávarsalti, ólívuolíu og hunangi. Nægilegu vatni til að þekja botninn, sirka 1/2 tsk af sjávarsalti, 4-5 msk af ólífuolíu og 3-4 tsk af hunangi. Mældi ekki nákvæmlega, heldur bara með auganu sem er í mörgum tilfellum besta og nákvæmasta mælieiningin.

læ4

Þá rak ég augun í þessar plómur sem lágu á borðinu og voru orðnar aðeins of þroskaðar til að borða einar og sér. Aðeins of mjölmiklar. Þetta voru sirka 10 plómur. Engin ástæða til annars en að setja þær um leið og gulræturnar, en í þetta sinn fóru þær inn nokkrum mínútum síðar. Bara af því ég gleymdi þeim.

Sem sé…plómurnar inn í ofn um leið og gulræturnar ef þið munið eftir því!

Og bara…ofninn á hæsta -200-250 gráður og inn um leið og lærið.

Auglýsing

Plómurnar bráðna alveg og verða að góðri sósu sem gott er að hella á kús kúsið. Þannig að ef þið sjáið engar plómur í fatinu þegar þið takið það út – ekki fá sjokk. Það á að vera þannig! Þær eru bara þarna til að verða að sósu. Það er þeirra hlutverk í þessu tilfelli. Og ef engar eru plómurnar, þá er tilvalið að taka nokkrar þurrkaðar apríkósur og skella í fatið í staðinn. Skera þær bara nokkuð smátt en ekki of – þær drekka í sig mikinn vövka og eru ansi góðar með gulrótum og kús kúsi.

Tékka á þessu við og við – hræra í fatinu – lækka hitann ef þarf…osfrv….

læ5

Lærið fór fyrst inn á 250 gráðum í 20-30 mínútur, lækkaði síðan í 200 gráður í kannski klukkutíma og loks í 180 gráður þarna fyrir rest. Var inni í rúman einn og hálfan tíma en hefði vel mátt dóla sér aðeins lengur.

Enn og aftur – hitastig eru bara til að miða við – allir ofnar eru misjafnir og misjafnt hversu mikið eldað hver og einn vill hafa kjötið. Ég er dálítið fyrir að hafa það vel eldað og satt best að segja meika ég ekki eldrautt lambakjöt.

Nautakjöt er annað mál – en það er fín lína á milli þess að vera með ofeldað og þurrt kjöt og vel eldað og gegnumsteikt. Þetta var smá rautt í miðjunni – ekki of sem betur fer – bara aðeins. Þess vegna – aðeins lengur ef þið viljið það ekki. Þetta slapp sem betur fer og allir voru ánægðir;)

læ6

Kús kús! 1 pakki (250 gr). Ég fylgi ekki alltaf “leiðbeiningum á pakka”.

Sýð vatnið í hraðsuðukatli, finnst alltaf þurfa aðeins meira vatn en stendur á pakkanum og bæti alltaf krafti við – grænmetis eða kjúklingakrafti.

Í þetta sinn fór einn tengingur af kjúklingakrafti saman við og soðið vatn. Samt betra að setja minna vatn en meira ef maður er ekki vanur að gera kús kús og bara alltaf ef maður er ekki viss. Líka misjafnt hversu þurrt kús kúsið er – alveg eins og með hveitið. Búið að liggja mislengi í hillum verslana og mismikill raki í því eins og í hveitinu.

Kús kús er satt best að segja eitthvert einfaldasta og fljótlegasta meðlæti sem finnst!. Bara kús kús í pott, soðið vatn, lok yfir…bíða smá…prófa…ef of hart…smá meira vatn og lokið aftur á…osfrv.

Síðan væna klípu af smjöri – ég man auðvitað ekkert hvað stendur “á pakkanum” en ég set alltaf vel af því – sirka 2-3 msk.

Loks ristaðar og saxaðar möndlur yfir allt og maturinn er tilbúinn!

Verði ykkur að góðu!

læ10

 

Sigurveig er landsþekktur sælkeri og heldur bæði út bloggi ásamt því að reka Matarkistuna

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!