KVENNABLAÐIÐ

„Ji, ég þekkti þig ekki, ertu búin að fitna?“

Ég hef alltaf verið í kjörþyngd, rétt yfir og undir, nema þegar ég varð ólétt. Þá tróð ég í mig og bætti töluvert á mig. Á öllum þremur meðgöngunum þyngdist ég yfir 40 kg sem er mjög mikið – ég veit. Ég náði öllu af mér strax þegar ég var búin að eiga elsta, næstum öllu eftir að ég átti miðjuna mína en núna stend ég í stað eftir að ég átti litla og eftir þá meðgöngu er ég ennþá 30 kg of þung sem er mikið. Sumt fólk er mjög upptekið af því hvað ég hef þyngst.

Auglýsing

Allir strákarnir mínir voru yfir 50 cm á lengd og allir voru þeir 20 merkum, enda borðaði ég mjög mikið þegar ég var ólétt og fæddist sjálf mjög stór. Á öllum mínum meðgöngum borðaði ég oft og mikið, ég var alltaf svöng og mér var alltaf flökurt ef ég varð svöng. Ég var í einhverjum vítahring. Í dag kemst ég ekki í fötin mín, er óöruggari með mig, á erfiðara með að fara í sund og ýmislegt fleira sem mér þykir vera verra að gera vegna þess að ég er þyngri. En ég veit þetta er tímabil og ég á eftir að ná þessu af mér.

Ég er núna búin að prófa að vera í yfirþyngd í töluvert langan tíma og það er „erfitt“ að vera of þungur. Ég fór til læknis þurfti að fara á vigt, hún sagði: „Þú verður að grenna þig, þú ert allt of þung.” Þess má geta að ég fór til hennar útaf allt öðru heldur en þyngd minni.

Ég fæ reglulega að heyra setningar eins og: „Þarftu ekki að hreyfa þig?“

„Þarftu ekki að fara út að labba?“

„Þú þarft að passa þig.“

„Veistu hvað þetta er hættulegt?“

„Þú varst ekki svona áður!“

„Þegar þú varst gella…“

„Já, þú varst alltaf svo sæt”

„Ji, ég þekkti þig ekki, búin að fitna?“

„Mikið hefur þú bætt á þig“

„Einu sinni varst þú svo flott“

„Hey, ég skal draga þig í ræktina“

„Þú verður að passa að verða ekki sykursjúk“

„Hvað ert þú orðin þung?” og svona gæti ég haldið áfram…

Ókei, ég veit að margt sem er sagt við mig er gert af kærleika frá fólki sem vill mér bara vel en ég hugsa samt: „Hvernig ætli mér myndi líða ef ég væri alltaf of þung?“

Ég veit ég á ekki að vera „feit“ og ég veit það fer mér betur að vera í kjörþyngd, ég veit það er hollara og allt það en mér finnst fólk gleyma því að ég er líka alveg til ennþá ég þó svo ég hafi fitnað. Hvað ef ég væri t.d með sjúkdóm sem myndi gera það að verkum að ég væri alltaf of þung? Hversu erfitt væri að hlusta á það hversu feitur maður sé, eða þurfi að gera þetta og hitt til þess að laga það.

Auglýsing

Sumir eru mjög ánægðir í eigin skinni, aðrir geta það ekki og hafa kannski lagt mikið á sig til þess að ná af sér aukakílóum. Matarfíkn, vanlíðan, þunglyndi – það er svo margt sem getur spilað inn í og það er svo margt sem getur gert það að verkum að fólk þyngist.

Við þurfum að vanda okkur, hrósa og uppörva einstaklinga. Við þurfum að vera nærgætin, hvernig við tölum skiptir svo miklu máli. Þó svo að eitthvað sem við segjum myndi ekki særa okkur sjálf þá getur það sært aðra. Það eru allir fallegir á sinn hátt.

Höfundur: Alma Rut

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!