KVENNABLAÐIÐ

Óð inn í eigin jarðarför og afhjúpaði eiginmanninn sem fyrirskipaði morðið: GJUGG Í BORG! ÉG LIFI!

Noela Rukundo ætti samkvæmt öllu, að vera löngu látin. Í raun er hún draugur og mætti þannig afturgengin í ákveðinni merkingu þeirra orða, í eigin jarðarför og afhjúpaði morðingja sinn; svikulan eiginmann hennar sjálfrar sem réði launmorðingja til að ráða hana af dögum fáeinum dögum fyrr.

Svo viss var eiginmaður Noelu í sinni sök, að hann efndi til fjársöfnunar fyrir jarðarför eiginkonu sinnar, sem hann sagði hafa látist í hræðilegu slysi fáeinum dögum fyrr og lék syrgjandi ekkil frammi fyrir börnum þeirra hjóna og nánustu fjölskyldu, eða allt þar til eiginkona hans gekk inn í miðja athöfnina og sagði einfaldlega:

– Gjugg í borg! Ég lifi!

Sagan, sem er nær of ótrúleg til að geta talist sönn, hófst í febrúar á síðasta ári þegar Noela, sem er afrísk, ferðaðist frá Melbourne í Ástralíu, þar sem hún hafði hlotið hæli sem flóttamaður fáeinum árum fyrr, til Burundi, heimalands síns til að vera viðstödd jarðarför.

_88103832_weddingphoto976
Noela og eiginmaður hennar, Kalala, á sjálfan brúðkaupsdaginn

Noela hafði nýlega komið heim á hótel sitt í Bujumbura, Burundi, þegar hún var handtekin af hóp byssumanna sem þvinguðu hana inn í bíl með ljótum orðum og sögðu að engu skipti þó þeir yrðu handteknir, myndi hún reka upp hljóð, þá yrði það síðasta verk hennar í þessu lífi.

Noelu, sem í viðtali við breska miðilinn BBC sem birtist fyrr í dag, sagðist vera sannfærð um að hún myndi ekki lifa nóttina af, var ekið með hulu yfir höfði og bundin við stól í yfirgefnu húsnæði, þar sem hún var löðrunguð, skömmuð og þvinguð til samvinnu af þremur fílelfdum karlmönnum:

– Þeir spyrja mig – Hvað gerðir þú eiginlega þessum manni? Af hverju er þessi maður að biðja okkur um að drepa þig? – En ég gat engu svarað, ég spurði bara – Hvaða maður? Hvern eruð þið að tala um? – Því ég á enga óvini og rífst aldrei við neinn. En þeir svöruðu bara – Maðurinn þinn! – Og ég sagði – Maðurinn getur ekki viljað að ég deyji, þið eruð að ljúga! – En þá slógu þeir mig bara.

Noela, sem var furðu lostin og viti sínu fjær af skelfingu, sagði BBC þannig að því næst hefði leiðtogi mannræningjanna tekið til orða:

– Þú ert svo vitlaus. Þú ert algjör fáviti. Ég skal bara hringja í manninn þinn, þann sem fyrirskipaði að láta drepa þig. Hann borgaði fyrir morðið á þér.

Því næst segir Noela að mannræningjar hennar hafi hringt í eiginmann hennar og stillt á hátalara svo hún heyrði hann með eigin röddu, kalt og yfirvegað, staðfesta það sem hún óttaðist mest:

– Drepið hana.

– Ég heyrði röddina í honum. Ég heyrði í honum. Mér leið eins og höfuðið á mér væri að springa. Svo heyrði ég mannræningjana útlista fyrir eiginmanni mínu hvar þeir ætluðu að grafa líkið af mér.

Örlögin ætluðu þó Noelu annað, en henni til undrunar og léttis virtust mannræningjarnir vera með samvisku, því skyndilega sagði leiðtogi þeirra við Noellu:

– Við ætlum ekki að drepa þig. Við drepum ekki konur og börn.

Noela var í haldi mannræningjanna í tvo daga, en að því loknu var henni sleppt úr haldi og skilin eftir í vegakanti með þeim fyrirmælum að hún yrði að yfirgefa Burundi innan 80 klukkutíma. Þó var henni ekki sleppt fyrr en leigumorðingjarnir höfðu kúgað aukreitis fé út úr eiginmanni hennar, eða heilar 300.000 íslenskar krónur, sem hann reiddi fúslega af hendi, sannfærður um að leigumorðið hefði heppnast.

Hent út í vegakant: Noelu voru gefnir 80 klukkutímar til að yfirgefa landið
Hent út í vegakant: Noelu voru gefnir 80 klukkutímar til að yfirgefa landið

Örmagna og viti sínu fjær af ótta hafði Noela samband við sóknarprest sinn í Melbourne, þar sem hún bjó ásamt eiginmanni sínum og átta börnum og grátbað um aðstoð til að snúa heim án þess að eiginmanni hennar yrði gert viðvart. Sóknarpresturinn, sem stóð þétt við bakið á Noelu, þagði sem steinn og greiddi fyrir flugmiða hennar til baka. Skömmu síðar kom að hennar eigin minningarathöfn og það var þá sem Noela steig fram fyrir opnum tjöldum, eftir að hafa fylgst með syrgjendum koma og fara um stund og horfði beint í augu Kalala, eiginmanns hennar, úti fyrir húsi þeirra hjóna.

Noela segir með eigin orðum frá atvikaröð á vef BBC:

– Þegar ég steig út úr bílnum, kom hann samstundis auga á mig. Hann setti hendur á höfuð og sagði – Eru þetta augun í mér? Er þetta draugur?

– Gjugg í borg! Ég er enn á lífi! sagði ég bara.

– Ég stóð bara kyrr og horfði á manninn. Hann var óttasleginn og flóttalegur og hann trúði ekki sínum eigin augum. Svo byrjaði hann að ganga á móti mér, hægt og hikandi, alveg eins og hann gengi á glerbrotum.

– Hann hélt bara áfram að tala við sjálfan sig og tauta ofan í bringuna á sér og þegar hann var kominn alveg upp að mér, þá snerti hann öxlina á mér og svo stökk hann upp í loftið. Hann snerti mig aftur, hoppaði svo enn hærra og sagði svo bara: – Noela, ert þetta þú? Svo byrjaði hann að öskra – FYRIRGEFÐU mér allt! FYRIRGEFÐU hvað ég gerði!

Þrátt fyrir harmakveini Kalala, sem örvinglaður grét og veinaði, var lögregla kölluð til og eiginmaður Noelu samstundis settur í tímabundið nálgunarbann þar til formleg réttarheimild fékkst til að úrskurða varanlegt nálgunarbann.

Noela ferðaðist alla leið til áströlsku borgarinnar Melbourne, með minnislykil frá mannræningjunum undir höndum, þar sem hlýða mátti meðal annars á upptökur af samtölum eiginmanns hennar við forsprakka hópsins og skoða afrit af Western Union millifærslum, sem staðfestu fyrirætlanir Kalala. Svo órækar sannanir lagði Noela í hendur lögreglu að nægði til að fella dóm. Kalala, sem hlaut níu ára fangelsisdóm fyrir tilræðið, hóf afplánun í september á síðasta ári.

Samlandar Noelu sneru baki við henni þegar upp komst um allt
Samlandar Noelu sneru baki við henni þegar upp komst um allt

Sjálf segir Noela í viðtalinu við BBC, sem birtist fyrr í dag, að ekki hafi verið auðvelt fyrir hana að standa ein á móti öllu afríska samfélaginu í áströlsku borginni Melbourne eftir að upp komst um allt. Ekki einungis er hún orðin einstæð, átta barna móðir, heldur hafa fjölmargir einnig snúið baki við henni fyrir það eitt að hafa kært Kalala, eiginmann sinn, fyrir morðtilræðið.

En Noela stendur keik uppi og er hvergi bangin:

– Ég er sterk kona og ég stend bein í baki. Staða mín og fortíð mín? Sá tími er liðinn. Ég er að byrja upp á nýtt og ég á allt lífið framundan.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!